Skóflustunga við Unnargrund 2

Fimmtudaginn 2. nóvember var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Unnargrund í Garðabæ. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Sturla Þorsteinsson, formaður fjölskylduráðs Garðabæjar, Guðrún Þórðardóttir, formaður Áss styrktarfélags, og Haraldur Viggó Ólafsson, fulltrúi í notendaráði Áss styrktarfélags, tóku fyrstu skóflustunguna.

Um er að ræða búsetukjarna með sex íbúðum fyrir fatlað fólk ásamt starfsmannarými og heildarstærð húsnæðisins er 506 m².

Garðabær og Ás styrktarfélag hafa gert samstarfssamning um byggingu búsetukjarnans, Garðabær mun eiga húsið og Ás styrktarfélag tekur að sér rekstur hússins og þjónustu við heimilismenn.

Húsnæðið er hannað af Önnu Margréti Hauksdóttur, arkitekt hjá AVH,  Lúmex sá um ljóshönnun og Landslag hannaði lóð hússins. Verktaki við uppsteypu hússins er Afltak. Heildarkostnaður við byggingu búsetukjarnans er áætlaður um 230,0 mkr.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdatími verði 16-18 mánuðir og að fyrstu íbúar flytji inn vorið 2019.

(frétt frá gardabaer.is)