Hótel við Hafnarstræti 80

Fréttatilkynning frá KEA:

„KEA fjárfestingarfélag hefur tekið ákvörðun um að hefja byggingu hótels við Hafnarstræti 80 á Akureyri eða á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð.  KEA keypti lóðina fyrir um tveimur árum en síðan þá hefur verið unnið að breytingum á skipulagi lóðarinnar svo af byggingu hótels geti orðið.  Til stendur að reisa þar 150 herbergja hótel en það mun skýrast síðar undir hvaða vörumerki hótelið mun starfa.  Um er að ræða stærsta hótelið sem verður starfrækt á Akureyri sem og reyndar á Norðurlandi öllu.

Hönnunarvinna er komin vel af stað en hún er krefjandi verkefni þar sem um er að ræða hús sem mun hafa sterka ásýnd í bæjarmynd Akureyrar um ókomna tíð.  Hönnunarvinna hefur tekið sérstaklega mið af því að húsið falli sem best að umhverfi sínu en nýti um leið þá einstöku umgjörð og staðsetningu til góðrar upplifunar gesta.  Reiknað er með að framkvæmdatími verði um 2 ár og er stefnt að opnun á vormánuðum 2019.  Það er AVH á Akureyri sem hannar hótelið og liggja frumdrög að hönnun nú þegar fyrir.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segir að þarna verði um að ræða hótel með mikla möguleika vegna einstakrar staðsetningar þess.  Það er þörf fyrir fleiri hótel á Akureyri vegna síaukins fjölda ferðamanna og við teljum að áður en langt um líður verði áhugi ferðamanna á Norðausturlandi sem heilsársáfangastað meiri en áður enda margt áhugavert að skoða og upplifa á þessu svæði allt árið um kring.   Það er markmið KEA  að þarna verði byggt af metnaði þannig að hótelið verði til sóma hvað útlit varðar sem og það hafi góða skírskotun í nærumhverfi sitt.“ (sótt 6. apríl af: http://www.kea.is/is/um-kea/frettir/kea-reisir-staersta-hotel-akureyrar )